Hvað á kirkjan að heita?

Á vef Grafarholtssóknar hefur verið sagt frá nokkrum tillögum að nafni á væntanlega kirkjubyggingu í Grafarholti. Ánægjulegt er, að frétt hefur nú birst á Morgunblaðinu og á vef þess um málið. Þó að af frétt blaðsins megi skilja, að þegar sé ákveðið að nefna kirkjuna eftir konu að tillögu sóknarprests, fer því fjarri. Engin ákvörðun hefur verið tekin um nafn á kirkju Grafarholtssóknar, en hugmyndir vel þegnar. Þær nafnatillögur, sem borist hafa umsjónarmanni síðunnar til eyrna, eru þessar:

- Auðarkirkja (hinnar djúpúðgu)
- Guðríðarkirkja
- Grafarholtskirkja
- Holtakirkja
- Kirkjuhvolskirkja
- Maríukirkja
- Reynisvatnskirkja
- Þrenningarkirkja

Í því skyni að kalla eftir fleiri tillögum og umræðum um tillögurnar, hefur þessi bloggsíða verið stofnuð um kirkju í Grafarholti og nafn hennar. Sóknarbörn og aðrir áhugasamir eru hvattir til að láta í sér heyra hér á síðunni! Hvaða nafn kjósa Grafarhyltingar helst á kirkjuna sína?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óttarr Makuch

Heil og sæl öllsömul,

Nú held ég svei mér þá að ég sé svo heppinn að vera meðlimur í einni af tæknivæddari kirkjusóknum landsins og þó víðar væri leitað.  Sóknin er með heimasíðu og bloggsíðu fyrir utan allt það góða starf sem hún gerir bæði hér í hverfinu sem utan þess.  Ég vil líka leyfa mér að fagna þeirri umræðu sem kominn er af stað varðandi nafnið á kirkjunni okkar.  Að svo komnu máli og af þeim tillögum sem komnar eru fram þá hallast ég mest að eftirtöldum nöfnum Grafarholtskirkja, Holtakirkja og Reynisvatnskirkja, ef síðasta nafnið yrði valið þá held ég að það sé gjörsamlega ómögulegt annað en að allir sem búa á stór Reykjavíkursvæðinu átti sig á því hvar kirkjan sé "nokkurn" vegin niðurkominn.

Hlakka til þess að fylgjast með umræðum um kirkjunafnið sem og kirkjustarfið bæði hér og á heimaíðu sóknarinnar.

Óttarr Makuch, 24.1.2007 kl. 20:43

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hæðakirkja. Upprisukirkja. Blessunarkirkja. Bæna(r)kirkja. Vonarkirkja. Friðarkirkja. Náðarkirkja. Kærleikskirkja. Sáttarkirkja. 

Mér finnst illa fara á því að skýra kirkjur í höfuðið á dauðum og dauðlegum mönnum þó þeir eigi góða minningu skilið. Katólskan gerir þetta en mér finnst það ekki smekklegt að upphefja einstaka manneskjur í þessu samhengi, þar sem allir eru jafnir fyrir Guði- Guð er í okkur og við í Guði.  Verum minnug þess að Guð er ekki vera, eða eitthvað áþreifanlegt heldur "allt sem er"  Nafn sem minnir á það sem Guð stendur fyrir í hugum okkar væri nær lagi. Að nafnið beri anda hans með sér finnst mér þjóna tilgangi hansbest.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.1.2007 kl. 01:05

3 identicon

Sælir Óttarr og Jón Steinar og takk fyrir snögg viðbrögð, skoðanir og uppástungur sem að sjálfsögðu fara inn í listann. 

Mig langar til að taka þátt í þessari umræðu . 

Kirkjur eru ekki skírðar og ef nafn í minningu látins Íslendings verður valið, þá er það ekki til að upphefja þá manneskju framar öðrum eða telja hana guðlegri.  Ég hef gaman af sögum og tel að úr þeim megi lesa mörg tákn, ekki síður en þeim dæmum sem Jón Steinar nefnir.  Hallgrímskirkja heitir ekki Hallgrímskirkja vegna þess að þar tilbiðji menn Hallgrím frekar en Guð, eða Hallgrími til upphafningar, heldur vegna þess að persóna, saga og skáldskapur Hallgríms getur snert við okkur og bent okkur inn í guðdóminn.  Ég er hrifin af Guðríði Þorbjarnardóttur, vegna þess að mér finnst svo margt í hennar sögu hafi þessar dýpt til að bera, sem geti tengt okkur inn í tákn, eins og 'bæn', 'von', umburðarlyndi´,veraldleg  og andleg ferðalög.  Hún tengir landafundina og fyrstu kristni, sem átti 1000 ára afmæli þegar byrjað var á hverfinu, .  Hún er ættmóðir flestra Grafarhyltinga, en í kirkjunni eigum við andlega móður sbr. sálminn "Kirkjan er oss kristnum móðir." Ég lít þess vegna á þessa hugmynd um nafngjöf með tilvísun í kirkjusöguna sem stef þar sem hin guðlega vídd og mannlegt líf mætast.  Vonarkirkja og Náðarkirkja hugnast mér vel, nöfnin minna mig á kirkjur sem ég þjónaði þegar ég var í afleysingum í Lúthersku kirkjunni í Bandaríkjunum.  Þar báru kirkjur nöfn eins og "Gloria Dei" (á latínu "Dýrð Guðs"), Heilög Þrenning, eða Kirkja Góða Hirðisins.  Þegar hefur verið stungið upp á nafni þrenningarinnar.  Kveðja, Sigríður

Sigríður Guðmarsdóttir (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 14:32

4 Smámynd: Þorgeir Arason

Komið þið sæl og takk fyrir góðar móttökur við þessari tilraunastarfsemi okkar í vefheimum, Þorgeir heiti ég og sé um barnastarfið í sókninni og auk þess heimasíðuna. Ég stenst ekki freistinguna að koma með mínar prívatskoðanir hér líka - vona að það fyrirgefist.

Auðarkirkjuhugmyndin er frá mér sjálfum komin og á vel við eigi nafn kirkjunnar að vera sögulegt (sem þarf auðvitað ekki að vera) í stíl við götunöfnin í hverfinu, tilvísun í Auði djúpúðgu, landnámskonuna kristnu. Ágætur maður benti mér á í dag að nafnið yrði eflaust túlkað í tengslum við fyrsta kvenprest Íslands, sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur. Það fyndist eflaust einhverjum jákvætt og öðrum ekki.

En ég er líka sammála Jóni Steinari í því, að vel fer á að nafnið beri með sér anda Guðs. Tillögur hans finnst mér allar fallegar, ekki síst Upprisukirkjan, en líka Þrenningarkirkjan, sem áður var fram komin - það er rismikið nafn og bendir á Guð - föður, son og heilagan anda.

Hvað snertir Grafarholtskirkjuna er ég hræddur um rugling við Grafarvogskirkju eins og fleiri en tilvísun í hverfið sjálft felst sannarlega líka í Reynisvatnskirkju eins og bent hefur verið á.

Hlakka til að heyra frekari viðbrögð.

Þorgeir Arason, 25.1.2007 kl. 14:34

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Auður djúpúðga var sannkristin kona og hafa Dalamenn reist henni veglegan minnisvarða, að mig minnir sumarið ´64 eða ´65 að Krosshólaborg í Hvammssveit.

Sögu kvenna í kristni hefur að mínu mati ekki verið gerð nægjanleg skil. Þeir eru ófáir (konur og karlar) sem minnast ömmu sinnar með hlýju og bliki í auga sem kenndi þeim fyrstu bænirnar.

Staðakenningar finnst mér mega láta undan svona einu sinni og Grafarholtsbúar munu menn að meiri ef þeir kenna kirkju sínu við þá merku, kristnu konu Auði.

Vesturbæingur.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 25.1.2007 kl. 15:01

6 Smámynd: Grafarholtssókn

Auður Eir braut náttúrulega blað í kirkjusögunni, en er helst til ung til þess að menn fari að nefna eftir henni kirkju!  það væri nú alveg bráðsnjallt að hafa Auðarkirkju hér í Grafarholtinu og svo er hjúkrunarheimilið Eir hérna rétt hinum megin við hálsinn :-) Smágrín, kv. Sigríður 

Grafarholtssókn, 25.1.2007 kl. 15:15

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þakka undirtektirnar. Sjálfum finnst mér Vonar, Kærleiks og Sáttarkirkja lýsa andanum best.  Sátt gæti t.d. verið viðeigandi hugtak í fjölmenningasamfélagi okkar. Sátt er djúpstætt hugtak og vísar til innra jafnvægis, sem ytra. Sátt merkir friður og hvað er meira aðkallandi í stormasömum heimi?  Svo er spurning hvort að menn sættist á það nafn

Það er kirkja að Hvammi í Dölum, sem ég þori að fullyrða að tileinkuð sé Auði Djúpúðgu. (eða Unni eins og hún hét víst). Ég vil svo bæta við nöfnunum Einingarkirkja og Lotningarkirkja við listann þó ekki vilji ég hella angist og valkvíða yfir sóknarnefndina. 

Jón Steinar Ragnarsson, 25.1.2007 kl. 15:20

8 identicon

Helst vil ég að hún heiti : Kirkja Guðs!........(ég veit að það eru allar okkar kirkjur – Kirkjur-Guðs)...en mér verður ,,hlýtt,, i  hjarta þegar ég segi nafnið....!

Ég hef lesið umfjöllunina um nafnið á Kirkjunni góðu og langar bara að segja það við þig - Sigriður að hugmyndirnar, eru góðar –alveg frá þeim fyrstu:

En hér koma svolitlar vangaveltur:

Vonarkirkja og Náðarkirkja og Þrenningarkirkjan....(Kirkja- Góða hirðisins...)eru vel hugsuð nöfn.og falleg.....og líka góðar  þær ,,athugasemdir,, sem þau fá, þau ágætu nöfn - eins og Grafarholtskirkja/(Grafarvogskirkja)-Maríukirkja.

Guðríðar-nafnið er  líka svo áhrifamikið og þegar maður hefur lesið útskýringar þínar af þessari Góðu/Kristnu - ættmóður Grafhyltinga.

Sigríðarkirkja   (hljómar lika vel i minum eyrum)

Reynisvatnskirkja og Auðarkirkja....eru prýðileg nöfn lika og tengingin góð.

Það er gott að okkur er umhugað um Nafnið og kirkjuna okkar!

Mig langar að spyrja þig/ykkur hvort nafnið  SKULI vera --- skráð á undan kirkjunni....þ.e. Kærleikskirkja...en ekki Kirkja kærleika(ns).../Blessunarkirkja en ekki Kirkja-Blessunar??

Í síðustu viku voru búin að koma i huga minn,  þau nöfn sem Jón Steinar stakk uppá eins og Kærleiks-kirkja og Blessunar-kirkja...

og nýtt til umhugsunar:(og hvernig þetta hljómar)

Vonar og Kærleikskirkjan í Grafarholti (Grafarholtssókn)..

Kirkja Vonar og Kærleika...í Grafarholti

Kirkja Kristinnar-Trúar –i Grafarholti

Kirkja Ljóssins í Grafarholtssókn...(Holti)

Ljóssins-kirkja........

Kirkja Friðarins i Grafarholti (Friðarkirkja)

Ath:...Marírukirkja.----...Kirkja-Helgrar-Maríu i Grafarholti..  

 dæmi:  (,,Hann,, er fermdur í  Kirkju-Trúarinnar eða Kirkju-Kærleikans ....eða ,,hún,, er fermd i Vonarkirkju eða Þrenningarkirkju).......Hljómar ágætlega...!

 Bestu kveðjur, Unnur Huld Vopna

Unnur Huld Sævarsdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 00:57

9 identicon

Ég er með tillögu um að það verði kosið um nafnið á kirkjunni. Þar sem þetta er nú kirkjan okkar allra. Mér sjálfri finnst Grafarholtskirkja hlutlausasta nafnið og fallegast. Kveðja, Fuglinn í Lindinni

Svala Huld Hjaltadóttir (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 20:48

10 identicon

Ingunnar-kirkja ?

Sakna þess að nafninu Ingunnarkirkja skuli ekki vera hampað. Kannski er það nafn of augljóst þar sem nýjir kirkjugestir þurfa fyrst að finna Ingunnarskóla og síðan að aka kringum skólann til að komast að kirkjunni. Bíð spenntur eftir fyrstu skóflustungunni.

Með góðri kveðju, Óskar

Óskar Óskarsson (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 12:26

11 Smámynd: Grafarholtssókn

Sæl og blessuð öll,

Mikið að gaman að fylgjast með blogginu!  

Ég held að Sigríðarnafnið eigi ekki eftir að hljóta hljómgrunn, en ég þakka fyrir Unnur Huld  Nafn kirkju getur hvort sem er byrjað eða endað á "Kirkja."  Þó verðum við að gæta okkur á að velja nafn sem er þjált og ekki of mörg atkvæði, annars festist það ekki á kirkjunni.

 Svala Huld talar um að Grafarholtskirkjunafnið sé hlutlausast.  Áttu við að það sé hlutlausast Svala af því að allt svæðið sem við búum á er kennt við Grafarholtið?  Að fornu voru tveir bæir hér í uppsveitum Gufunessóknarinnar, Grafarholt, sem kennt er við bæinn Gröf eins og Grafarvogurinn, og svo Reynisvatn.  Með því að sóknin sé kennd við Grafarholtið og kirkjan Reynisvatnið, þá væri nú hlutleysinu býsna vel náð, í austurhluta hverfisins jafnt sem vesturhluta.  Og öll búum við við götur sem eru tengdar landafundum og fyrstu kristni, svo að þau nöfn vísa til þess sem er sérstakt við hverfið. 

 Sóknarnefndin fylgist vel með síðunni og veltir fyrir sér hvernig best skuli staðið að vali á nafni kirkjunnar. Þess vegna er gott að fá viðbrögð hérna á síðunni. og skoðanir bæði á nöfnum og framkvæmd valsins.  Takk fyrir það!

Ingunnar er getið í Jóns sögu Hólabiskups.  Hún var dóttir bústýrunnar á Hólum og fékk að vera í skólanum, þó að konur á skólabekk væru fátíðar á þeim tíma.  Hún var vel að sér í hannyrðum og sérstaklega latínu.  Hún lærði ekki bara latínuna, heldur kenndi skólabræðrum sínum hana líka og er því fyrsti kvenkyns skólakennari sem sögur fara af á Íslandi.  Hins vegar er hennar ekki sérstaklega getið í sambandi við kirkjulegan sið.  

 Kær kveðja, Sigríður sem bíður líka spennt eftir skóflustungu

Grafarholtssókn, 1.2.2007 kl. 20:29

12 identicon

Enn afhverju má þá ekki bara kjósa um nafnið?

kveðja,

Fuglinn í Lindinni.

Svala Huld Hjaltadóttir (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 09:37

13 Smámynd: Grafarholtssókn

Sæl Svala,

Hefur engur sagt að ekki megi kjósa um nafnið?  Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvernig skuli staðið að nafnavalinu.  Með því að opna bloggsíðuna og hleypa umræðunni úr vör á síðum Fréttabréfsins erum við að kalla eftir tillögum og skoðunum.  Það er fyrsta skrefið.  Kærar kveðjur, Sigríður

Grafarholtssókn, 2.2.2007 kl. 10:03

14 Smámynd: Grafarholtssókn

Úps, ég ætlaði að segja einhver en ekki engur!  Kveðja, Sigríður

Grafarholtssókn, 2.2.2007 kl. 10:04

15 Smámynd: Grafarholtssókn

Sæll öll, ég var beðin um að koma þessu á framfæri: Tillaga undirritaðrar á nafni á fyrirhugaðri kirkju á Grafarholtier “GUÐRÍÐARKIRKJA”.Guðríðar Þorbjarnardóttur yrði minnst og konum sýndur sómiþar sem kirkjan yrði sú fyrsta á landinu til að bera nafn konu.    G. Halla GuðmundsdóttirGrænlandsleið 36    

Grafarholtssókn, 2.2.2007 kl. 20:57

16 Smámynd: Grafarholtssókn

Sæl ágætu bloggarar og bloggurur (nýyrði!)

Ég hef verið að velta fyrir mér nafnhefð kirkna.  Ef þær standa í sveit eru þær oftast kenndar við kirkjujörðina, í þéttbýli kenndar við plássið, dalinn, eyrina eða fjörðinn.  Á kaþólskri tíð voru kirkjur helgaðar dýrlingum.  Í Reykjavík stóð kirkja, þar var Jónskirkja postula, en annexíur þar sem minna þurfti að messa í Laugarnesi.  Hún var helguð Guði, Maríu, Pétri, Nikulási, Urbanusi og sælli Margréti.  Á Mosfelli í Mosfellssveit var kirkja og Maríukirkja á annexíunni í  Gufunesi, þar sem bæirnir Grafarholt og Reynisvatn áttu sókn. 

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað réði nafni Áskirkju í Reykjavík, sem reist var í Reykjavík að ég held á áttunda áratug síðustu aldar .  Hún stendur í Laugarásnum, sem aldrei er kallaður annað og því hefði átt að liggja í augum upp að kirkjan yrði nefnd Laugaráskirkja.  Ég er sannfærð um það að með því að nefna hana Áskirkju í stað Laugaráskirkju hafi menn sýnt mikla framsýni, áttað sig á því að Laugaráskirkju og Laugarneskirkju  í Reykjavík yrði eilíflega ruglað saman.  Éf þessi ályktun er rétt hjá mér, þá er nýlegt fordæmi til um það að kirkjunafnið hafi verið lagað til þess að ruglingur við aðra kirkju yrði ekki of mikill.  Er ekki nákvæmlega sama upp á teningnum með Grafarholtskirkju og Grafarvogskirkju?  Áskirkjunafnið hefur svo sannarlega unnið sér sess meðal sóknarbarna og ég efast um að margir velti því fyrir sér hvers vegna kirkjan heitir ekki Laugaráskirkja.

Kveðja, Sigríður

Grafarholtssókn, 4.2.2007 kl. 18:27

17 Smámynd: Þorgeir Arason

Í framhaldi af innleggi Sigríðar um Áskirkju má álykta, að með sömu rökum ætti kirkja Grafarholtssóknar að nefnast Holtskirkja eða Holtakirkja, en síðarnefnda tillagan hefur þegar komið fram. Holtskirkjur eru víst tvær á landinu nú þegar, undir Eyjafjöllum og í Önundarfirði, svo að Holtakirkjunafnið er betra í því sambandi.

Annars líst mér vel á hugmynd Fuglsins í Lindinni um að kjósa um nafn kirkjunnar. Það væri lýðræði í verki í kirkjunni! - Mér þykir ekki ólíklegt, að málið verði með einhverjum hætti tekið upp á aðalsafnaðarfundi í Grafarholti 25. febrúar nk.

Kær kveðja, Þorgeir.

Þorgeir Arason, 5.2.2007 kl. 11:14

18 identicon

Ég er Grafhyltingur! Og ég hlýt að mega koma fram tillögu líka? Ekki sagt og það er mín tillaga að kjósa um nafnið á kirkjunni ?

Kveðja,

Fuglinn

Svala Huld Hjaltadóttir (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 11:45

19 Smámynd: Grafarholtssókn

Sæl og blessuð,

Það sem ég vildi segja með hugleiðingum mínum um Áskirkju, er ekki að ákvarða að kirkjan EIGI að heita eitt eða neitt, heldur að benda á fordæmi þess að breytt hafi verið út frá nafnavenju kirkju til þess að koma í veg fyrir rugling.  Það eru rök bréfsins míns.  Svo má spinna þráðinn áfram og velta fyrir sér hvort eigi að fara sömu leið og menn gerðu í Áskirkju, sneiða bara Laugina af Ásnum og Gröfina af Holtinu.  En það er ekki sjálfgefið.

Mér finnst Holtakirkjunafnið síðra en Holtsnafnið, vegna þess að í Grafarholtinu er bara eitt holt, sem hverfið er kennt við, ekki mörg.  Holtskirkja væri betra, að mínum dómi og tel ég mjög ólíklegt að Holtskirkju í Reykjavík væri ruglað saman við kirkju undir Eyjafjöllum eða í Önundarfirði, eða að menn flykktust þangað í athafnir í misgripum í stríðum straumum. Þannig veit ég ekki til þess að Langholtskirkju í Reykjavík sé ruglað saman við Langholtskirkju í Meðallandi í Skaftafellsprófastdæmi, eða Árbæjarkirkju í Holtum í Rangárvallaprófastdæmi við Árbæjarkirkju í Reykjavík.  Aðalmálið að mínu viti er að kirkjur sem standa mjög nálægt hver annarri, beri ekki of lík nöfn.  Allmargar kirkjur á Íslandi eru til að mynda kenndar við Stað og voru fleiri áður.  Af landslagsnöfnum er ég, prívat og persónulega þannig hrifnust af nafni Holtskirkju í Reykjavík eða Reynisvatnskirkju, en af nöfnum tengdum fornri kristni er ég höllust undir Guðríði, þó að Auðarkirkja djúpúðgu hugnist mér líka vel.

Svala Huld, rödd þín heyrist skíýrt og vel.  Þú ert ekki ein um að vilja kjósa um nafnið á kirkjunni og er það vel að safnaðarmeðlimum sé annt um kirkjuna sína og nafn hennar og vilji hafa áhrif á það val.  Ég vil hvetja ykkur öll til þess að mæta á aðalsafnaðarfundinn 25. febrúar.  Þar er rétti vettvangurinn til að bera upp slíkar tillögur.  Á aðalsafnaðarfundi á hver safnaðarmeðlimur 16 ára og eldri tillögurétt, atkvæðisrétt og málfrelsi.  Þessi bloggsíða hefur ekki lögformlegt gildi og er einungis ætlað að vera vettvangur fyrir umræðu.   En það er mjög áhugavert að ræða það hér hvernig við getum staðið að valinu með sem lýðræðislegustum hætti og gott að fá hugmyndir að því.

Bestu kveðjur, Sigríður 

Grafarholtssókn, 5.2.2007 kl. 13:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Kirkja Grafarholts

Höfundur

Grafarholtssókn
Grafarholtssókn
Hér er umræða um væntanlega kirkju í Grafarholtssókn og nafn hennar.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...24jan07_001
  • Á Lindinni

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband